Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur gæti staðið frammi fyrir því að stig verði dregin af karlaliðinu í ensku úrvalsdeildinni vegna gruns um brot á félagaskiptareglum enska knattspyrnusambandsins fyrir 15 árum.
Málið snýr að sölu á sóknarmanninum Jermain Defoe frá Tottenham til Portsmouth sumarið 2008.
Samkvæmt The Times nýtti Tottenham sér umboðsmanninn Mitchell Thomas við söluna, sem fór gegn reglum knattspyrnusambandsins þar sem Thomas hafði ekki tilskilin leyfi til þess að starfa sem umboðsmaður.
Málið kom inn á borð knattspyrnusambandsins á þeim tíma. Sjálfstæð nefnd úrskurðaði svo að ekkert frekar skyldi aðhafst í málinu.
Talskona enska knattspyrnusambandsins sagði að sambandið hafi ekki komið að nefndarstörfum með beinum hætti fyrir 15 árum og vissi því ekki nákvæmlega hvaða sönnunargögn voru lögð fram fyrir nefndina þá.
Verði ný sönnunargögn lögð fram sem gefi til kynna alvarleg brot gegn reglum knattspyrnusambandsins mun sambandið skoða þau að sögn talskonunnar.
Brot gegn reglum knattspyrnusambandsins um umboðsmenn hafa í gegnum tíðina leitt til stigafrádráttar hjá liðum, forstöðumenn félaga hafa verið úrskurðaðir í bönn og félög úrskurðuð í félagaskiptabönn.
Sama ár, 2008, voru tíu stig dregin af Luton Town fyrir að brjóta gegn reglum enska knattspyrnusambandsins um umboðsmenn.