Þingmaður Gana bað Maguire afsökunar

Harry Maguire, miðvörður Manchester United og enska landsliðsins.
Harry Maguire, miðvörður Manchester United og enska landsliðsins. AFP/Glyn Kirk

Þingmaður Gana, Isaac Adongo, hefur beðið enska knattspyrnumanninn Harry Maguire afsökunar á ummælum sem hann lét falla um varnarmanninn á þingi á síðasta ári.

Á síðasta ári greip Adongo til undarlegrar samlíkingar í umræðum um fjárlög á þinginu þegar hann bar það sem honum þótti slæm frammistaða Maguires á vellinum saman við meðhöndlun varaforseta Gana, Mahamudu Bawumia, á efnahag þjóðarinnar.

„Herra Bawumia er eins og Harry Maguire, sem vörn Manchester United stafar mest ógn af,“ sagði Adongo þá.

Í vikunni baðst Adongo afsökunar á ummælum sínum, sagði Maguire vera lykilmann hjá Manchester United en nýtti tækifærið áfram til þess að gagnrýna Bawumia.

Maguire tók vel í afsökunarbeiðnina.

„Isaac Adongo, ég samþykki afsökunarbeiðnina. Sjáumst brátt á Old Trafford,“ svaraði Maguire á X-aðgangi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert