Enska knattspyrnusambandið hefur varað ítalska knattspyrnustjórann Roberto De Zerbi formlega við vegna hegðunar sinnar og ummæla í garð dómara á tímabilinu.
De Zerbi, sem er stjóri Brighton & Hove Albion hefur verið gjarn á að láta enska dómara heyra það á meðan leikjum stendur og sömuleiðis látið skoðanir sínar á þeim í ljós eftir leiki.
„Þetta er ekkert nýtt. Mér líkar illa við 80 prósent dómara í ensku úrvalsdeildinni og ég er ekki hrifinn af hegðun þeirra inni á vellinum.
England er líka eina landið þar sem þú veist aldrei hvort ákvarðanir VAR-myndbandsdómgæslunnar séu réttar. Ég skil ekki hvernig VAR virkar á Englandi,“ sagði hann eftir 1:1 jafntefli Brighton og Sheffield United um þarsíðustu helgi.
Haldi De Zerbi áfram að hegða sér með þessum hætti má hann eiga von á leikbanni og/eða sektum í framtíðinni.