Trent Alexander-Arnold, varafyrirliði Liverpool, fer ekki í grafgötur með það að liðið stefni að því að standa uppi sem Englandsmeistari á tímabilinu.
„Markmið okkar sem liðs er að vinna deildina og það er aftur markmiðið okkar á þessu tímabili. Síðasta tímabil var ekki nógu gott.
Við fengum nýja leikmenn til liðs við okkur. Þetta snerist um að þeir aðlöguðust sem fyrst og sjá til þess að við lögðum góðan grunn í byrjun tímabilsins,“ sagði Alexander-Arnold á fréttamannafundi í dag.
Liverpool heimsækir Manchester City, Englandsmeisturum síðustu þriggja tímabil, í hádeginu á morgun í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar.
Manchester City er á toppnum með 28 stig og Liverpool er sæti neðar með 27 stig.
„Við erum í mjög góðri stöðu og þegar kemur að úrslitum og formi erum við að gera nægilega mikið til þess að vera eins nálægt toppnum og við mögulega getum.
Það er enginn búinn að vinna deildina ennþá, það á enn eftir að spila fjölda leikja. En hingað til hefur frammistaða okkar verið á þann veg að maður myndi búast við því að lið sem spilar svona geti unnið deildina.
Ef við getum haldið því áfram ættum við að vera við toppinn þegar maí gengur í garð,“ bætti Alexander-Arnold við.