Topplið Manchester City tók á móti Liverpool í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu enda ekki á hverjum degi sem toppliðin tvö mætast.
Leikurinn fór frekar rólega af stað þar sem bæði lið þreifuðu hvort á öðru. City-menn voru þó með undirtökin og sköpuðu sér hættulegri stöður.
Fyrsta færi leiksins kom á 11. mínútu þegar Alisson, markvörður Liverpool, gerði mistök og sendi boltann beint á Phil Foden. Enski landsliðsmaðurinn lagði boltann fyrir sig og lét vaða að marki en Alisson varði frekar auðveldlega.
Á 16. mínútu fékk Darwin Núnez fínasta skallafæri eftir fyrirgjöf frá Mohamed Salah. Úrúgvæinn átti góðan skalla að marki City en Ederson varði vel frá honum.
Fyrsta mark leiksins kom á 27. mínútu þegar Erling Haaland skoraði fimmtugasta mark sitt í ensku úrvalsdeildinni. Alisson rann þá til þegar hann ætlaði að spyrna frá marki sínu. Boltinn barst til Nathan Aké sem labbaði framhjá Dominik Szoboszlai og Trent Alexander-Arnold áður en hann renndi boltanum innfyrir á Haaland sem kláraði færið sitt vel framhjá Alisson í markinu og heimamenn komnir yfir.
Á 35. mínútu fékk Darwin Núnez ágætis færi eftir sendingu frá Szoboszlai en hann renndi boltanum framhjá markinu.
Phil Foden átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiknum en hann átti þó mjög gott skot að marki Liverpool-manna á 44. mínútu þegar hann lét vaða fyrir utan teiginn. Skotið stefndi í markið en Alisson náði að setja fingurgómana í boltann og blaka honum afturfyrir í hornspyrnu.
Meira gerðist ekki í fyrri hálfleiknum og þegar Chris Kavanagh flautaði til loka hans þá leiddu heimamenn, 1:0.
Fyrsta færi seinni hálfleiksins kom á 53. mínútu þegar Doku labbaði framhjá Mac Allister. Belginn lagði boltann út á Julián Álvarez sem átti skot en það fór vel yfir mark gestanna.
Á 55. mínútu átti Rodri fyrirgjöf sem Alexander-Arnold skallaði á einhvern óskiljanlegan hátt beint fyrir lappirnar á Erling Haaland sem lét vaða að marki en skot hans fór yfir.
Rúben Dias kom boltanum í netið á 68. mínútu eftir hornspyrnu heimamanna. Markið var hinsvegar dæmt réttilega af þar sem Manuel Akanji braut á Alisson í aðdraganda marksins.
Á 80. mínútu dróg til tíðinda. Jérémy Doku labbaði þá framhjá Joel Matip í vörn Liverpool manna og lagði boltann fyrir markið. Þar beið Erling Haaland inni á teignum og átti Norðmaðurinn skot að marki sem Alisson varði vel. Liverpool liðið brunaði þá í skyndisókn sem endaði með því að Mohamed Salah lagði boltann fyrir Trent Alexander-Arnold. Enski landsliðsmaðurinn lét vaða í fjærhornið og söng boltinn í netinu. Allt orðið jafnt og tíu mínútur til leiksloka.
Þessar síðustu mínútur einkenndust af hörku og tæklingum og ljóst var að hvorugt liðið ætlaði að tapa þessum leik.
Erling Haaland fékk fínt skallafæri eftir hornspyrnu á áttundu mínútu uppbótartíma en skalli hans lak framhjá fjærstönginni.
Þrátt fyrir að níu mínútum hafi verið bætt við leikinn þá náði hvorugt liðið að setja sigurmarkið og endaði leikurinn með jafntefli, 1:1.