Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri enska félagsins Manchester United, segir að næsta vika sé gríðarlega mikilvæg og geti orðið vendipunktur í gengi liðsins.
Það hefur hitnað í sæti hans sem knattspyrnustjóri liðsins undanfarið og margir aðdáendur sem hafa kallað eftir breytingum þar sem liðinu hefur mistekist að byggja ofan á sigra og virðast stundum standa í stað.
Manchester United hefur tapað átta af fyrstu 15 leikjunum í öllum keppnum á tímabilinu og er versta byrjun félagsins síðan árið 1962. United vann þó síðustu tvo leiki sína fyrir nýafstaðið landsleikjahlé, gegn Fulham og Luton.
Liðið mætir Everton á sunnudag í leik sem gæti orðið snúinn þar sem Everton-menn gætu mætt með hefndarhug eftir tíu stiga frádrátt í deildinni vegna brota félagsins á reglum deildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri. Einungis þremur dögum síðar mætast Manchester United og Galatasaray í Tyrklandi og United fer þaðan til Newcastle um næstu helgi.
„Næsta vika og næsti mánuður munu skipta sköpum fyrir tímabilið okkar, við erum búnir að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum og verðum að byggja ofan á það. Við spilum þrjá leiki á sex dögum en við erum með markmið.“