Ásaka ensku deildina um spillingu

Borðanum sem var flogið með yfir leikvang Manchester City í …
Borðanum sem var flogið með yfir leikvang Manchester City í gær. AFP/Darren Staples

Stuðningsmenn Everton mótmæltu því að dregið var af þeim tíu stig með borða yfir Etihad-leikvanginum í gær og mótmælin munu halda áfram í dag.

Stigin voru dregin af liðinu vegna brota fé­lags­ins á regl­um ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um hagnað og sjálf­bærni í rekstri.

„Enska deildin = spillt #UTFT #EFC,“ stóð á borða sem stuðningsmenn Everton flugu yfir leik Manchester City og Liverpool í gær en myllumerkin þýða „áfram fokking Everton“ og „Everton Football Club“ svo skilaboðin voru vel merkt liðinu.

Næsti leikur Everton er gegn Manchester United í dag klukkan 16.30 á heimavelli.

Stuðningsmannahópur Everton, The 1878s, hefur safnað um 40.000 pundum til þess að mótmæla og hafa prentað út skilti sem á stendur að enska deildin sé spillt.

Hópur af stuðningsmönnum Everton mótmæltu fyrir utan höfuðstöðvar ensku deildarinnar í gær með bleik skilti og fána sem aftur stóð á að enska deildin væri spillt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert