Chelsea styrkir stöðu sína á toppnum

Lauren James í leik með Chelsea á tímabilinu.
Lauren James í leik með Chelsea á tímabilinu. Ljósmynd/Chelsea

Chelsea er með 22 stig á toppi ensku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu eftir átta leiki. Liðið vann Leicester 5:3 í dag og hefur ekki tapað leik á tímabilinu.

Hin 22 ára Lauren James skoraði tvö mörk fyrir Chelsea og fyrsta mark hennar kom eftir aðeins 70 sekúndur þegar hún komst inn í sendingu niður frá Sam Tierney og setti boltann í netið. 

Aðeins þremur mínútum síðar var hún aftur á ferðinni og fékk sendingu frá Sam Kerr inn fyrir vörn Leicester, James skaut en Janina Leitzig varði boltann.  Courtney Nevin varð þá fyrir því óláni að fá frákastið í sig og boltinn fór í netið, staðan því 2:0 eftir aðeins fimm mínútur.

Jutta Rantala minnkaði munin í 2:1 en Kerr skoraði þriðja mark Chelsea stuttu síðar. Aftur svaraði Leicester og But Tierney kom stöðunni í 3:2 í hálfleik.

James skoraði svo annað mark sitt á 58. mínútu eftir undirbúning frá Fran Kirby áður en þær voru báðar teknar af velli á 74. mínútu.

Agnes Beever-Jones sem er 20 ára gömul skoraði svo fimmta mark Chelsea á 88. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert