Tottenham og Aston Villa mættust í spennandi leik í 13. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í dag. sem fór 2:1 fyrir Aston Villa á útivelli í London.
Þetta var þriðja tap Tottenham í röð en liðið er nú með 26 stig í fimmta sæti. Aston Villa tók fjórða sætið í deildinni af þeim og er þar með 28 stig.
Leikurinn byrjaði af krafti og eftir aðeins tíu mínútur voru komnar sjö marktilraunir. Destiny Udogie byrjaði leikinn í dauðafæri á 3. mínútu þegar hann fékk sendingu á bak við vörnina, náði ágætis stjórn á boltanum en negldi honum svo yfir mark Villa.
Á sömu mínútu var Tottenham aftur í færi en þá var það Dejan Kulusevski sem fór fram hjá varnamanni og þrumaði boltanum í stöngina eftir sendingu frá Heung-min Son.
Pau Torres fékk svo fyrsta færi leiksins hjá Aston Villa stuttu síðar þegar hann skallaði boltann rétt fram hjá eftir aukaspyrnu.
Bryan Gil fékk frábært færi á 8. mínútu eftir skemmtilega hælsendingu frá Kulusevski sem varð til þess að Gil var mættur einn á móti markmanni en Martínez gerði vel í markinu og varði.
Þegar um stundarfjórðungur var liðinn fengu bæði liðin fín færi en flaggið fór á loft í bæði skiptin, Son skaut yfir eftir flottan undirbúning frá Johnson og stuttu síðar var Kulusevski mættur einn á móti Martínez sem varði.
Fyrsta mark leiksins kom svo á 22. mínútu sem Giovani Lo Celco skoraði eftir hornspyrnu. Boltinn barst út í teiginn þar sem Lo Celco var einn og hann þrumað honum í netið, 1:0 fyrir Tottenham.
Ollie Watkins hélt að hann hefði jafnað metin aðeins tveimur mínútum síðar þegar hann skoraði fyrsta rangstöðumark leiksins en þau voru fjögur í heildina.
Rodrigo Bentancur fór meiddur af velli eftir um hálftíma leik en þetta var fyrsti leikur hans í byrjunarliði frá því að hann sleit krossband í hné. Hann fór niður eftir tæklingu frá Matty Cash.
Á 44. mínútu setti Son boltan í netið en flaggið fór á loft, þetta var hans fyrsta rangstöðumark í leiknum en ekki síðasta.
Á síðustu mínútu uppbótartíma jafnaði svo Pau Torres metin fyrir Villa með skallamarki eftir aukaspyrnu sem Douglas Luiz tók og staðan því 1:1 í hálfleik.
Son Heung-min var nálægt því að skora í upphafi seinni hálfleiks en skallaði boltann rétt yfir netið.
Son var svo aftur á ferðinni á 59. mínútu þegar hann skoraði rangstöðumark eftir sendingu frá Johnson, sem var líka rangstæður.
Ollie Watkins skoraði svo annað mark Villa á 61. mínútu eftir að taka 1, 2 með Tielemans inn í teig Tottenham og lauma honum fram hjá Vicario.
Son fullkomnaði síðan rangstöðuþrennu á 85. mínútu þegar hann náði frákastinu af skoti Porro sem fór í stöngina.
Fleiri mörk komu ekki, hvorki rangstæð né lögleg og leikurinn endaði 2:1 fyrir Villa.