Terry Venables er látinn

Terry Venables er látinn.
Terry Venables er látinn.

Terry Venables, fyrrverandi leikmaður Chelsea, Tottenham og QPR og síðar landsliðsþjálfari Englands og knattspyrnustjóri m.a. Barcelona, Tottenham og Leeds, er látinn, áttræður að aldri.

Venables átti langan feril í enska fótboltanum, sem miðjumaður, en hann lék 508 deildaleiki og skoraði 50 mörk frá 1960 til 1975, aðallega með ofangreindum félögum en einnig með Crystal Palace undir lok ferilsins. Hann varð bikarmeistari með Tottenham árið 1967 og vann deildabikarinn með Chelsea 1965.

Hann lék tvo A-landsleiki fyrir Englands hönd og fjóra leiki með 23-ára landsliði Englendinga.

Venables gerðist knattspyrnustjóri Crystal Palace árið 1976, tók við QPR 1980 og síðan Barcelona frá 1984 til 1987 þar sem liðið varð einu sinni spænskur meistari undir hans stjórn. QPR komst í bikarúrslit og náði fimmta sæti efstu deildar undir hans stjórn.

Hann stýrði síðan Tottenham frá 1987 til 1991, var framkvæmdastjóri félagsins í tvö ár  eftir það, var síðan landsliðsþjálfari Englands 1994-1996 og síðan eitt ár með landslið Ástralíu.

Eftir það stjórnaði Venables aftur Crystal Palace um skeið, siðan Middlesbrough og Leeds, og starfaði síðast sem aðstoðarþjálfari enska landsliðsins, en var sagt upp ásamt þjálfaranum Steve McClaren eftir að Englandi mistókst að komast í lokakeppni EM 2008.

Venables var lengi knattspyrnusérfræðingur í sjónvarpi og kom einnig að margs konar störfum utan fótboltans, skrifaði skáldsögur, tók þátt í  gerð sjónvarpsþátta, og átti meira að segja feril sem söngvari þar sem hann kom lagi inn á vinsældalista á Bretlandseyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert