Manchester United vann góðan 3:0 sigur á Everton í dag í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Þrátt fyrir að vera án knattspyrnustjórans Erik ten Hag og nokkurra lykilmanna náðu leikmenn Manchester United að skora þrjú mörk og fara með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Tottenham í því fimmta.
Fyrsta mark leiksins kom á þriðju mínútu leiksins þegar Alejandro Garnacho skoraði stórglæsilegt mark með bakfallsspyrnu.
Eftir markið fóru leikmenn Manchester United aftar á völlinn og leikmenn Everton sóttu hart næstu mínútur. Þrátt fyrir mörg marktækifæri náðu Everton-menn ekki að klára færin og hálfleikstölur því 1:0 fyrir Manchester United.
Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum tvöfaldaði Marcus Rashford stöðuna fyrir Manchester United með marki úr vítaspynu og róðurinn orðinn þyngri fyrir Everton. Framherjinn Anthony Martial skoraði svo þriðja mark United-manna þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.
Fleiri urðu mörkin ekki og Everton enn með fjögur stig og í bullandi fallbaráttu.