Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, var ánægður með leikmenn sína þrátt fyrir 2:1-tap gegn Aston Villa í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Tottenham hefur misst marga byrjunarliðsleikmenn í meiðsli undanfarið og léku því fjórir bakverðir í vörn Tottenham í dag og mikið er af leikmönnum í hópnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í deildinni. Þrátt fyrir það átti liðið 18 skot og skoraði þrjú mörk sem voru dæmd af.
Ange sagði eftir leik að þessi staða sé bara tímabundin og að liðið muni komast í gegnum þetta. „Þetta gæti tekið smá tíma en sama hve lengi þetta varir þá mun liðið komast í gegnum þetta, svo lengi sem við mætum í leiki og spilum eins og við gerðum í dag. Ég trúi því að þetta verði gott fótboltalið.“
Hann sagði að leikmenn liðsins þyrftu nú að setja hausinn niður og einbeita sér að einu verkefni í einu, og líta fram hjá meiðslavandanum. „Markmiðið sem við settum fyrir tímabilið er enn í gildi og við þurfum að gera okkar allra besta til þess að reyna að ná því, ef það mistekst þá er það bara svo. Leikurinn í dag hefði geta fallið hvoru megin en því miður gekk þetta ekki upp í dag.“
Tottenham er í fimmta sæti deildarinnar eftir tapið í dag með 26 stig en félagið á nokkuð erfiða leiki fram undan en næsti mótherji er Manchester City þann 3. desember.