Sparkspekingurinn Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United, hrósaði unga miðjumanninum Kobbie Mainoo í hástert eftir frammistöðu dagsins.
Kobbie var valinn í byrjunarlið Manchester United er liðið vann 3:0-sigur á Everton í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Kobbie er einungis átján ára gamall og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í janúar, en þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur fyrir félagið í deildinni. „Þarna er átján ára leikmaður sem er yfirvegaðri á boltanum en nokkur annar á vellinum, en þetta er glæsilegur fyrsti byrjunarliðsleikur hjá honum,“ sagði Neville eftir leikinn.
Kobbie lék 72 mínútur í dag en hann átti gott undirbúningstímabil með Manchester United áður en hann meiddist á ökkla í júlí. Knattspyrnustjóri félagsins, Erik ten Hag, sagði fyrir leik að það sem hann hafi séð á undirbúningstímabilinu hafi verið nóg en meiðslin hafi komið á slæmum tíma.