Willian reyndist hetja Fulham þegar liðið hafði betur gegn Wolves í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Craven Cottage í Lundúnum í kvöld.
Leiknum lauk með dramatískum sigri Fulham, 3:2, en Willian skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Alex Iwobi kom Fulham yfir á 7. mínútu en Matheus Cunha jafnaði metin fyrir Wolves á 22. mínútu og staðan var því 1:1 í hálfleik.
Willian kom Fulham yfir á nýjan leik með marki úr vítaspyrnu á 59. mínútu en Hwang Hee-Chan jafnaði metin fyrir Wolves, einnig með marki úr vítaspyrnu, á 75. mínútu.
Willian skoraði svo sigurmarkið eftir að að brotið var á Harry Wilson innan teigs en Michael Salisbury, dómari leiksins, studdist við VAR-myndbandsdómgæsluna áður en hann benti á punktinn.
Fulham fer með sigrinum upp í fimmtánda sæti deildarinnar í 15 stig en Wolves er í tólfta sætinu, einnig með 15 stig.