Cheick Doucouré, miðjumaður Crystal Palace, fór meiddur af velli í leik liðsins gegn Luton á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.
Leiknum lauk með sigri Luton, 2:1, en hann fór af velli á sjúkrabörum á 54. mínútu og virkaði sárþjáður.
Doucouré, sem er 23 ára gamall, meiddist á hásin í leiknum en enski miðillinn Sportsmail greinir frá því að hann verði frá næstu sex mánuðina.
Hann gæti því misst af því sem eftir er af tímabilinu en hann hefur byrjað ellefu leiki liðsins í deildinni það sem af er tímabili.
Crystal Palace er með 15 stig í þrettánda sæti deildarinnar eftir fyrstu þrettán umferðirnar.