Alveg að gefast upp á VAR

Gary O'Neil, knattspyrnustjóri Úlfanna.
Gary O'Neil, knattspyrnustjóri Úlfanna. AFP/Adrian Dennis

Gary O‘Neil, knattspyrnustjóri Wolverhampton Wanderers, segir ákvörðun dómara leiks liðsins gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi um að dæma vítaspyrnu eftir ábendingu VAR-dómara, hafa farið langt með að láta hann missa alla trú á notkun VAR.

Fulham vann leikinn 3:2 og kom sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma, sem Willian skoraði úr vítaspyrnu.

Hún var dæmd eftir að dómari leiksins, Michael Salisbury, fór í VAR-skjáinn og mat það sem svo að brotið hafi verið á Harry Wilson innan vítateigs. Því var stjórinn alls ekki sammála.

„Það gæti verið að kvöldið í kvöld hafi loksins fengið mig til að snúast gegn VAR. Áhrifin sem þetta er að hafa á orðspor mitt, félagsins og líferni fólks eru gífurleg.

Við ættum að geta rætt um leikinn í stað ákvarðanna en því miður er það ekki hægt. Ég tel þetta vera flókið vandamál.

Ég hef alltaf verið fylgjandi notkun VAR en í augnablikinu tel ég það vera að valda vandræðum. Ég tel VAR hafa kostað okkur stig,“ sagði O‘Neil í samtali við Sky Sports eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert