Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, sló á létta strengi á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Galatasaray í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á morgun.
Fernandes var spurður út í stórkostlegt mark Alejandro Garnacho, sem skoraði með hjólhestaspyrnu í 3:0-sigri Man. United á Everton í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi, og hvort Argentínumaðurinn ungi væri að æfa hjólhestaspyrnur.
„Ég veit ekki hvort hann sé að æfa þær. Það væri ekki gott fyrir bakið hans,“ svaraði Fernandes og hló.
Galatasaray og Man. United mætast í mikilvægum leik í baráttunni um annað sætið í A-riðli í Istanbúl á morgun. Hefst leikurinn klukkan 17.45.