Enskur landsliðsmaður leggur skóna á hilluna

Gylfi Þór Sigurðsson og Phil Jagielka eftir leik með Everton …
Gylfi Þór Sigurðsson og Phil Jagielka eftir leik með Everton fyrir sex árum. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Phil Jagielka hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 41 árs að aldri, eftir 23 ára feril sem atvinnumaður í heimalandinu.

Jagielka lék síðast með Stoke City í ensku B-deildinni en hafði verið samningslaus frá því í sumar og hefur nú ákveðið að láta gott heita.

Hann lék stærstan hluta ferilsins með Everton, á árunum 2007 til 2019, og lék 40 A-landsleiki fyrir Englands hönd árin 2008 til 2016, þar sem Jagielka skoraði þrjú mörk. Hann var í lokahópi Englands á EM 2012 og HM 2014.

Jagielka, sem lék lengst af í stöðu miðvarðar, hóf ferilinn hjá Sheffield United árið 2000 og lék alls í níu tímabil með uppeldisfélaginu. Hann lék einnig um skeið fyrir Derby County á síðari hluta ferilsins.

Alls lék hann 765 leiki fyrir félagslið sín í öllum keppnum og skoraði 43 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert