Markaskorara Liverpool verður ekki refsað

Trent Alexander-Arnold fagnar jöfnunarmarki sínu í Manchester.
Trent Alexander-Arnold fagnar jöfnunarmarki sínu í Manchester. AFP/Darren Staples

Trent Alexander-Arnold, leikmanni enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verður ekki refsað fyrir  það hvernig hann fagnaði marki sínu gegn Manchester City í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni um nýliðna helgi.

James Pearce, blaðamaður hjá The Athletic, greinir frá þessu en leiknum lauk með jafntefli, 1:1, á Etihad-vellinum í Manchester.

Alexander-Arnold jafnaði metin fyrir Liverpool á 80. mínútu með frábæru skoti og hljóp hann í átt að stuðningsmönnum Manchester City og sussaði á þá þegar hann fagnaði markinu.

Samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins eiga leikmenn það á hættu að fá gult spjald fyrir að ögra andstæðingum sínum en Chris Kavanagh, dómari leiksins, ákvað að sýna Alexander-Arnold ekki gula spjaldið fyrir fögnuðinn.

Enskir miðlar fjölluðu um það um helgina að Alexander-Arnold gæti átt von á refsingu en Pearce greinir frá því að atvikið sé ekki til skoðunar hjá knattspyrnusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert