Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur áhuga á því að festa kaup á þýska sóknarmanninum Timo Werner frá þýska félaginu RB Leipzig.
Sky Sport í Þýskalandi greinir frá því að Man. United hafi spurst fyrir um möguleikann á því að krækja í Werner þegar opnað verður fyrir félagaskipti að nýju í janúar.
Hann er sagður óánægður með hlutverk sitt hjá Leipzig en vilji þó halda kyrru fyrir að minnsta kosti til næsta sumars.
Viðræður eru ekki komnar langt á veg þar sem enska félagið hefur aðeins lagt fram fyrirspurn.
Werner hefur áður leikið á Englandi, um tveggja ára skeið hjá Chelsea, þar sem hann náði sér engan veginn á strik og skoraði tíu mörk í 56 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.
Hefur Werner skorað tvö mörk og lagt upp eitt í tólf leikjum í öllum keppnum fyrir Leipzig á tímabilinu.