Mikið áfall fyrir Liverpool

Alisson Becker.
Alisson Becker. AFP/Daniel Ramalho

Alisson Becker, markvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, mun að öllum líkindum missa af næstu fimm leikjum liðsins vegna meiðsla.

Þetta tilkynnti Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag en Alisson meiddist á lokamínútunum í leik Manchester City og Liverpool í úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Brasilíski markvörðurinn er að glíma við tognun aftan í læri en hann hefur verið lykilmaður í liði Liverpool á tímabilinu sem situr í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig, tveimur stigum minna en topplið Arsenal.

Þá greindi Klopp einnig frá því að Diogo Jota hefði líka meiðst aftan í læri og að hann yrði frá í einhvern tíma.

Liverpool tekur á móti LASK í Evrópudeildinni á Anfield á morgun en liðið mætir svo Fulham 3. desember, Sheffield United 6. desember og loks Crystal Palace 9. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert