Fleiri stig dregin af Everton?

Stuðningsmenn Everton mótmæla stigafrádrættinum sem liðið fékk fyrr í mánuðinum.
Stuðningsmenn Everton mótmæla stigafrádrættinum sem liðið fékk fyrr í mánuðinum. AFP/Paul Ellis

Karlalið enska knattspyrnufélagsins Everton gæti staðið frammi fyrir frekari stigafrádrætti í ensku úrvalsdeildinni verði forráðamenn félagsins fundnir sekir um að hafa brotið gegn fjárhagsreglum deildarinnar.

Fyrir tveimur vikum úrskurðaði óháð nefnd að draga skyldi tíu stig af Everton vegna brota félagsins á reglum úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri.

Þau brot áttu sér stað á tímabilinu 2021-22. Verði Everton fundið sekt um að hafa brotið gegn reglum um eyðslu tímabilið 2022-23 má liðið eiga von á frekari stigafrádrætti og það strax á yfirstandandi tímabili.

Everton þarf líkt og önnur félög að skila ársreikningum fyrir tímabilið 2022-23 fyrir lok þessa árs.

The Times greinir frá því að samkvæmt nýjum reglum úrvalsdeildarinnar, sem settar voru á fót í sumar, muni deildin vera fljótari að taka á brotum gegn fjárhagsreglum og fá óháða nefnd til þess að úrskurða í slíkum málum áður en yfirstandandi tímabil er á enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert