Ensk úrvalsdeildarfélög hafa haldið áfram að nota tvo leikmenn og haldið einum knattspyrnustjóra í starfi þrátt fyrir að þeir sæti lögreglurannsókn vegna ásakana um kynferðis- og heimilisofbeldi.
Samkvæmt rannsókn BBC hefur lögreglan rannsakað leikmenn og/eða knattspyrnustjóra alls sjö félaga af 20 í ensku úrvalsdeildinni frá árinu 2020 vegna gruns um kynferðisbrot.
Breska ríkisútvarpið hefur rætt við meint fórnarlömb annars af tveimur ofangreindum leikmönnum og knattspyrnustjórans.
Alls hafa fimm konur sakað leikmanninn um nauðgun. Í tilfelli stjórans hafa tvær konur sakað hann um nauðgun og ein til viðbótar sakað hann um að reyna að þvinga hana til samræðis.
Báðar konurnar sem saka stjórann um nauðgun voru fimmtán ára gamlar þegar meint brot áttu sér stað á 10. áratug síðustu aldar og segir önnur þeirra óttast um öryggi barna þar sem hann sé enn í starfi. Hin konan var rétt rúmlega tvítug.
Þær sjö konur sem breska ríkisútvarpið ræddi við, fimm sem saka leikmanninn um nauðgun ásamt annarri konunni sem sakar stjórann um nauðgun og konunni sem sakaði hann um tilraun til að þvinga sig til samræðis, segja enska knattspyrnusambandið og ensku úrvalsdeildina setja fjárhagslega hagsmuni sína ofar öryggi kvenna.
Málsmetandi aðilar sem breska ríkisútvarpið ræddi við kalla eftir því að úrvalsdeildin og/eða knattspyrnusambandið setji knattspyrnumenn sem sæta lögreglurannsókn vegna meintra afbrota til hliðar þar til rannsókn lýkur í stað þess að setja það í hendur félaganna sjálfra að ákveða hvað sé best að gera.
Misjafnt er hvernig félögin bregðast við. Thomas Partey, leikmaður Arsenal, hefur verið sakaður um að nauðga nokkrum konum. Hann hefur þrátt fyrir það haldið áfram að spila fyrir liðið og það þó lögreglurannsókn standi enn yfir.
Antony, leikmaður Manchester United, var þá sakaður um heimilisofbeldi og settur til hliðar um stund en sneri skömmu síðar aftur og hefur spilað með liðinu þrátt fyrir að rannsókn standi yfir.
Stjórinn ónefndi er þá enn í starfi og sætir lögreglurannsókn vegna málsins sem snýr að konunni sem sakaði hann um að reyna að þvinga hana til samræðis.
Everton setti Gylfa Þór Sigurðsson til hliðar á meðan rannsókn stóð yfir í máli hans, þar sem hann var sakaður um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku, áður en málið var látið niður falla.
Þá var samningur hans runninn út og samdi Gylfi Þór í haust við Lyngby í Danmörku.
Mason Greenwood var settur til hliðar hjá Manchester United á meðan rannsókn á máli hans, þar sem hann var sakaður um heimilisofbeldi og tilraun til nauðgunar, stóð yfir. Málið var látið niður falla og Greenwood var svo lánaður til Getafe á Spáni.