Tomás Soucek, tékkneskur miðjumaður West Ham United, hefur reynst liðinu geysilega mikilvægur í undanförnum leikjum.
Hinn stóri og stæðilegi Soucek hefur skorað sigurmörk Hamranna í þremur leikjum í röð í öllum keppnum.
Öll hafa þau komið seint og um síðir í leikjunum og er þetta í fyrsta sinn sem hann skorar í þremur leikjum í röð fyrir West Ham.
Soucek tryggði Hömrunum 3:2-sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni þann 12. nóvember með marki á 88. mínútu.
Um síðustu helgi tryggði hann liðinu svo 2:1-sigur á Burnley í deildinni með marki á fyrstu mínútu uppbótartíma.
Í gærkvöldi tryggði Soucek svo 1:0-sigur West Ham á Backa Topola í Sambandsdeild Evrópu með marki á 89. mínútu.
Hann lét ekki þar við sitja og skoraði í báðum leikjum tékkneska landsliðsins í undankeppni EM 2024, sem fóru fram á milli deildarleikjanna tveggja.
Skoraði Soucek eina mark Tékka í 1:1-jafntefli gegn Póllandi og svo þriðja markið í 3:0-sigri á Moldóvu, vitanlega á 90. mínútu, þegar Tékkland tryggði sér sæti á EM.
Hefur landsliðsfyrirliðinn því skorað í fimm leikjum í röð fyrir félags- og landslið sín.