Enska knattspyrnufélagið Everton hefur áfrýjað úrskurði óháðrar nefndar ensku úrvalsdeildarinnar um að draga tíu stig af karlaliðinu, sem leikur í úrvalsdeildinni.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Everton.
Þar segir að formanni dómsnefndar ensku úrvalsdeildarinnar hafi verið tilkynnt um áfrýjun Everton og að nú verði áfrýjunarnefnd skipuð til að fjalla um málið.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á vegum ensku úrvalsdeildarinnar þótti sýnt fram á að Everton hafi brotið gegn reglum deildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri.
Deildin mælti með 12 stiga frádrætti en óháða nefndin úrskurðaði að tíu stig væru nóg, sem er mesti stigafrádráttur liðs í rúmlega þriggja áratuga sögu ensku úrvalsdeildarinnar.