Fyrrverandi stjóri Liverpool sá allra versti

Brendan Rodgers og Mario Balotelli í leik með Liverpool árið …
Brendan Rodgers og Mario Balotelli í leik með Liverpool árið 2015. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli fer ekki fögrum orðum um fyrrverandi knattspyrnustjóra sinn Brendan Rodgers í viðtali við TVPlay sem birtist á dögunum.

Balotelli, sem er 33 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá AC Milan sumarið 2014 en enska félagið borgaði 16 milljónir punda fyrir hann á sínum tíma.

Framherjinn náði sér aldrei á strik í Bítlaborginni og lék aðeins með liðinu í eitt tímabil áður en hann var lánaður aftur til AC Milan en alls lék hann 28 leiki fyrir félagið þar sem hann skoraði fjögur mörk.

Frábærar æfingar Rodgers

„Brendan Rodgers er versti stjóri sem ég hef haft á ferlinum,“ sagði Balotelli í samtali við TVPlay.

„Ef horft er til æfinganna hjá honum þá voru þær frábærar og líklega þær bestu sem ég hef fengið að upplifa þar sem áherslan var alltaf að halda boltanum innan liðsins. 

Sem persóna þá var hann hins vegar hræðilegur,“ bætti Balotelli við en hann er núna samningsbundinn Adana Demirspor í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert