Arsenal vann 2:1-sigur á Wolves í dag á heimavelli og er því áfram á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 33 stig en Úlfarnir eru í 13. sæti með 15 stig.
Bukayo Saka opnaði markareikning Arsenað eftir aðeins sex mínútur þegar hann lék á varnarmenn, tók svo þríhyrning með Takehiro Tomiyasu inn í teig og sendi hann framhjá José Sá í marki Wolves.
Stuttu síðar tvöfaldaði Martin Ödegaard forystu Arsenal með marki eftir frábært spil hjá Arsenal. Oleksandr Zinchenko tók góðan þríhyrning við Gabriel Jesus og laumaði svo boltann milli varnarmanna Wolves út í teiginn þar sem fyrirliðinn var vel staðsettur og hamraði boltanum í fjærhornið.
Trossard fékk svo tækifæri á að skora þriðja mark Arsenal eftir tuttugu mínútur eftir sendingu frá Ödegaard en Sá gerði vel í markinu og varði. Sá þurfti stuttu síðar að fara af velli vegna meiðsla.
Á 37. mínútu skaut Saka í stöngina og stuttu síðar fékk Arsenal annað gott færi þegar Jesus tók boltann á lofti en skaut yfir.
Úlfarnir fengu svo fyrsta alvöru tækifæri þeirra á sjöundu mínútu uppbótartímans eftir mistök hjá Zinchenko og William Saliba sem Hwang nýtti sér en fyrsta snerting hans var ekki nógu góð og Raya kom úr markinu og mætti honum.
Staðan 2:0 í hálfleik sem var vel sloppið fyrir Úlfanna miðað við þau færi sem Arsenalmenn fengu.
Matheus Cunha skoraði svo eina mark Úlfanna á 86. mínútu eftir stoðsendingu frá Nélson Semedo, þeir reyndu það sem þeir gátu að ná inn jöfnunarmarkinu en það tókst ekki svo leiknum lauk 2:1.