Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kvaðst aldrei áður hafa séð lið sem hann þjálfar skora jafn mörg falleg mörk í einum og sama leiknum og þegar liðið lagði Fulham að velli, 4:3, í ensku úrvalsdeildinni í gær.
„Ég held að ég hafi aldrei séð jafn mörg falleg mörk í einum leik,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports eftir leikinn.
Trent Alexander-Arnold byrjaði á magnaðri aukaspyrnu sem fór í þverslána og þaðan í bakið á Bernd Leno, markverði Fulham, sem fékk síðar markið skráð á sig sem sjálfsmark.
Alexis Mac Allister skoraði annað mark Liverpool með stórkostlegu skoti langt utan af velli sem söng uppi í samskeytunum. Wataru Endo jafnaði metin í 3:3 með glæsilegu skoti upp í samskeytin og Alexander-Arnold rak smiðshöggið með hnitmiðuðu skoti niður í bláhornið nær við vítateigslínuna vinstra megin.
„Í dag skoruðum við fjögur stórkostleg mörk og vorum heppnir að vinna leikinn. Það segir allt sem segja þarf,“ sagði Klopp við BBC Sport.