Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er einn þeirra sem hefur bæst í hóp gagnrýnenda Marcusar Rashfords, sóknarmanns liðsins.
Rashford, sem er 26 ára gamall, náði sér engan veginn á strik um helgina þegar United tapaði á útivelli gegn Newcastle í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Sóknarmaðurinn hefur alls ekki fundið sig á tímabilinu til þessa en hann hefur skorað tvö mörk í 13 leikjum í úrvalsdeildinni.
„Marcus Rashford er heimamaður, uppalinn hjá félaginu og hann er með risasamning hérna,“ sagði Roy Keane sem var sérfræðingur hjá Sky Sports um helgina þegar farið var yfir frammistöðu United.
„Ég þarf að sjá mikli meira frá honum. Hann er duglegur að hlaupa fram völlinn en þegar kemur að varnarvinnunni þá er hann ekki jafn duglegur að hlaupa. Hann er 26 ára gamall, hann er enginn unglingur lengur.
Hann er á meðal reynslumestu leikmanna liðsins og hann verður að leiða með einhverju fordæmi. Það sem við erum að sjá er engan veginn nógu gott,“ bætti Keane við en Írinn lék alls 478 leiki fyrir félagið á árunum 1993 til 2005.