Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Newcastle skoða það nú að semja við spænska markvörðinn David de Gea.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en de Gea, sem er 33 ára gamall, er án félags þessa stundina eftir að samningur hans við Manchester United rann út í sumar.
Nick Pope, markvörður Newcastle, fór úr axlarlið í 1:0-sigrinum gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.
Pope verður að öllum líkindum frá út tímabilið og forráðmenn Newcastle skoða það nú að fá inn markvörð.
De Gea lék með United á árunum 2011 til 2023 og á að baki 545 leiki fyrir félagið í öllum keppnum, þar af 415 í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hélt marki sínu hreinu í 148 skipti.