Fær ekki að æfa með liðinu

Jonny í leik með Úlfunum.
Jonny í leik með Úlfunum. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Jonny, leikmaður Wolverhampton Wanderers, fær hvorki að æfa né spila með liðinu á næstunni vegna atviks sem kom upp á æfingu í síðustu viku.

Gary O’Neil, knattspyrnustjóri Úlfanna, greindi frá á fréttamannafundi í dag þó hann hafi ekki greint frá því hvers konar atvik hafi verið um að ræða.

„Jonny verður ekki í liðinu. Það kom upp atvik á æfingasvæðinu í síðustu viku sem félagið er að eiga við.

Við munum láta alla vita ef eða þegar hann verður gjaldgengur að nýju. Sem stendur verður hann ekki gjaldgengur í næstu leikjum,“ sagði O‘Neil.

Jonny hefur verið mikið á varamannabekknum hjá liðinu og aðeins komið við sögu í þremur leikjum á tímabilinu.

„Ég vil helst ekki fara í smáatriði á almannafæri. Það er margt sem getur gerst á æfingasvæðinu og hjá félögum. Í augnablikinu er hann ekki með okkur, en hann er ekki að æfa með okkur.

Ég tek þátt í öllu en yfirmenn mínir eru einnig að taka á málinu. Við látum ykkur vita þegar hann kemur aftur. Ég get ekki gefið neitt frekar upp sem stendur,“ bætti stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert