Knattspyrnudómaranum Simon Hooper verður ekki refstað fyrir mistökin sem hann gerði í stórleik helgarinnar þegar Manchester City tók á móti Tottenham í Manchester í gær.
Hooper, sem er 41 árs gamall, dæmdi leikinn heilt yfir ágætlega en þegar komið var fram í uppbótartíma gerði hann sig sekan um afar slæm mistök þegar hann blés í flautu sína þegar Jack Grealish var við það að sleppa í gegn.
Til stendur að Hooper dæmi leik Sheffield United og Liverpool sem fram fer í Sheffield á miðvikudaginn kemur.
Hooper hefur áður gerst sekur um mistök á tímabilinu, til dæmis í 1. umferðinni þegar hann dæmdi ekki vítaspyrnu á André Onana, markvörð Manchester United, í leik liðsins gegn Wolves á Old Trafford.
Hooper var refsað fyrir þau mistök og fékk hann ekki að dæma í 2. umferð deildarinnar en hann dæmdi einnig stórleik Tottenham og Liverpool í 7. umferðinni þann 30. september þar sem mörg vafaatriði litu dagsins ljós.