Flautumark í hádramatískum sigri Arsenal

Declan Rice reyndist hetja Arsenal þegar liðið heimsótti nýliða Luton í 15. umferð ensku úrvaldeildarinnar í knattspyrnu í Luton í kvöld.

Leiknum lauk með ótrúlega dramatískum sigri Arsenal, 4:3, en Declan Rice skoraði sigurmark leiksins þegar sex mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Arsenal er með 36 stig á toppi deildarinnar og hefur fimm stiga forskot á Liverpool sem á leik til góða á Arsenal, en Luton er í sautjánda sætinu með 9 stig.

Leikurinn fór mjög rólega af stað og það var ekki fyrr en á 20. mínútu sem það dró til tíðinda þegar Gabriel Martinelli kom Arsenal yfir eftir mikinn vandræðagang í vörn Luton.

Arsenal refsaði grimmilega

Teden Mengi átti slaka sendingu til baka sem Thomas Kaminski hreinsaði í innkast. Gabriel Jesus var fljótur að kasta boltanum til Bukayo Saka sem tók sprettinn í átt að endalínunni.

Hann átti svo frábæra fyrirgjöf, beint í fæturnar á Martinelli, og Brasilíumaðurinn stýrði boltanum með hægri fæti í vinstra hornið af stuttu færi út teignum og staðan orðin 1:0.

Luton-menn voru fljótir að jafna metin og Gabriel Osho átti frábæran skalla á 25. mínútu eftir hornspyrnu Alfie Doughy frá vinstri, úr miðjum teignum, og staðan orðin 1:1.

Gabriel Jesus kom Arsenal svo yfir á nýjan leik undir lok fyrri hálfleiks með skalla af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Ben Whites frá hægri og Arsenal leiddi því 2:1 í hálfleik.

Luton fljótir að svara

Það tók Luton aðeins fjórar mínútur að jafna metin í síðari hálfleik en Alfie Doughy átti þá frábæra hornspyrnu frá hægri, beint á kollinn á Elijah Adebayo.

David Raya rauk út úr markinu og reyndi að handsama knöttinn en Adebayo skallaði boltann yfir hann, beint í netið og staðan orðin 2:2.

Ross Barkley kom Luton svo yfir í fyrsta sinn í leiknum á 57. mínútu þegar hann fór illa með Ben White í vítateig Arsenal og átti svo þrumuskot með vinstri fæti, utarlega í teignum, sem Raya í markinu réð ekki við en markvörðurinn missti boltann klaufalega undir sig.

Það tók Arsenal þrjár mínútur að jafna leikinn en boltinn Bukayo Saka átti þá langa sendingu fram völlinn og varnarmenn Luton náði ekki að hreinsa frá marki.

Dramatískt sigurmark

Gabriel Jesus tók vel á móti honum, sendi hann svo í gegn á Kai Havertz sem lyfti boltanum snyrtilega yfir Kaminski í marki Luton og staðan orðin 3:3.

Það var svo Declan Rice sem skoraði sigurmarkið með frábærum skalla og lokasekúndum leiksins en Martin Ödegaard átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri, beint á kollinn á Rice, sem skallaði boltann frábærlega í netið og lokatölur því 4:3, Arsenal í vil, í Luton.

Luton 3:4 Arsenal opna loka
90. mín. +6 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert