Enski knattspyrnumaðurinn James Maddison, sóknartengiliður Tottenham Hotspur, viðurkennir að hafa aldrei heyrt um tilvonandi samherja sinn hjá liðinu áður en sá var keyptur í sumar.
Ítalski markvörðurinn Guglielmo Vicario var keyptur frá Empoli í sumar, líkt og Maddison frá Leicester City.
Vicario hafði staðið sig vel með liðinu í ítölsku A-deildinni í tvö tímabil á undan en var þrátt fyrir það ekki mjög þekkt nafn.
„Ég var sjálfur ekki búinn að skrifa undir. Ég spurði: „Hver er þetta?“ Ég hafði aldrei heyrt um hann.
Ég var í baksætinu í bíl að skoða hápunkta hans á YouTube, til þess að ganga úr skugga um hvort hann gæti eitthvað,“ sagði Maddison í samtali við Amazon Prime Sport.
Spurður hvort honum hafi litist á það sem Vicario sýndi á YouTube sagði Maddison:
„Satt að segja leit þetta vel út hjá honum, magnaður í að verja skot. Ég myndi segja að það sé hans helsti styrkleiki, það er erfitt að skora hjá honum.
Stundum æfum við vítaspyrnur og skot á æfingum. Þá vil ég hafa hann í marki því það er erfiðast að skora hjá honum.“