Knattspyrnumaðurinn Nemanja Matic ræddi tíma sinn á Englandi í hlaðvarpsþættinum YuPlanet á dögunum
Matic, sem er 35 ára gamall, lék með Chelsea frá 2009 til 2011 og svo aftur frá 2014 til ársins 2017 en hann lék einnig með Manchester United í fimm ár, frá 2017 til 2022.
Hann varð tvívegis Englandsmeistari með Chelsea og einu sinni bikarmeistari en hann er í dag samningsbundinn Rennes í frönsku 1. deildinni.
„Ráin var mjög há hjá Chelsea og þar höguðu leikmenn sér eins og sannir atvinnumenn ef svo má segja,“ sagði Matic.
„Það mætti enginn of seint á æfingar hjá Chelsea en sagan var allt önnur hjá United, þar mættu leikmenn of seint á hverjum einasta degi. Paul Pogba og Jadon Sancho eru leikmenn sem mættu alltaf of seint á æfingasvæðið.
Þetta fór mikið í taugarnar á okkur sem mættum alltaf á réttum tíma þannig að við settum á laggirnar sektarsjóð. Við söfnuðum 75.000 pundum í sektarsjóðinn á einu tímabilinu og var markmiðið að halda gott partí í Lundúnum en svo varð ekkert úr því vegna kórónuveirufaraldursins,“ sagði Matic en það samsvarar rúmlega 13 milljónum íslenskra króna.