Allir elska hann

Fraser Forster er áfram hjá Tottenham næstu 18 mánuðina.
Fraser Forster er áfram hjá Tottenham næstu 18 mánuðina. AFP/Daniel Leal

Markvörðurinn Fraser Forester hefur framlengt samning sinn við enska félagið Tottenham Hotspur og fer fögrum orðum um hinn nýja knattspyrnustjóra félagsins, hinn ástralska Ange Postecoglou.

Forster hefur að mestu verið í hlutverki varamarkvarðar Tottenham en hefur samið um að vera áfram hjá félaginu til vorsins 2025.

„Það hefur verið stórkostlegt að vinna með nýja stjóranum. Allir elska hann. Þú skynjar andrúmsloftið á heimaleikjunum og hvert við stefnum, og það er frábært að taka þátt í því. Ég mun hjálpa liðinu eftir minni bestu getu.

Þetta hefur verið frábært fyrir alla. Hann er mjög skýr varðandi leikstílinn. Hann byggir upp sjálfstraust hjá öllum og gefur mönnum mikið frelsi til að spila. Það vilja allir leikmenn,“ sagði Forster í viðtali á heimasíðu Tottenham.

Forster er 35 ára gamall og kom frá Southampton sumarið 2022. Hann hefur spilað 20 leiki með aðalliði Tottenham, 14 þeirra í úrvalsdeildinni, en samtals á Forster 471 mótsleik að baki á ferli sínum með Tottenham, Southampton, Celtic og Newcastle, ásamt leikjum sem lánsmaður með Norwich, Bristol Rovers og Stockport. Hann hefur spilað sex A-landsleiki fyrir Englands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert