Arteta í leikbann eftir fagnaðarlætin

Mikel Arteta á hliðarlínunni í gær.
Mikel Arteta á hliðarlínunni í gær. AFP/Glyn Kirk

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, verður í leikbanni þegar liðið heimsækir Aston Villa í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina.

Arteta, sem er 41 árs gamall, fékk að líta gula spjaldið í 4:3-sigri Arsenal gegn Luton á útivelli í gær.

Spænski stjórinn missti sig algjörlega þegar Declan Rice skoraði sigurmark leiksins á 97. mínútu með skalla úr teignum og fagnaði eins og óður maður.

Hann fékk að líta gula spjaldið fyrir að rjúka út úr boðvangi Arsenal en þetta var hans þriðja gula spjald á tímabilinu.

Arsenal er með 36 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur fimm stiga forskot á Liverpool sem er í öðru sætinu og á leik til góða á Arsenal en Aston Villa er í fjórða sætinu með 29 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert