Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir útskýrðu af hverju fulltrúum frá fjórum fjölmiðlafyrirtækjum hefði verið meinaður aðgangur að blaðamannafundi stjórans Eriks ten Hag í gær.
Í gær bárust fréttir af því að Manchester Evening News, staðarmiðlinum í Manchester, hefði verið meinaður aðgangur að blaðamannafundi ten Hags fyrir leik United og Chelsea sem fram fer á Old Trafford í kvöld.
Ásamt Manchester Evening News var fulltrúum frá Sky Sport, ESPN og Mirror einnig meinaður aðgangur að fundinum en allir miðlar birtu fréttir þess efnis í vikunni að ten Hag væri búinn að missa klefann hjá Manchester United.
„Við ákváðum að grípa til aðgerða gegn nokkrum fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingu Manchester United.
„Þetta snérist ekki um þær fréttir sem voru skrifaðar og hvort okkur hafi líkað umfjöllunarefnið eða ekki. Þessar fréttir voru skrifaðar án þess að haft væri samband við okkur og okkur var aldrei gefið tækifæri til þess að svara fyrir þær.
Við teljum okkur eiga rétt á því að segja frá okkar hlið málsins, og verja okkur þannig, ef þess ber undir. Vonandi verður þetta til þess að samstarf okkar við fjölmiðla verði betra í framtíðinni,“ segir enn fremur í tilkynningu United.