Jamie Carragher, knattspyrnusérfræðingur hjá Sky Sports og fyrrverandi leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, setti inn mjög áhugaverða færslu á samfélagsmiðilinn X í gær.
Carragher ræddi þá nýjustu ummæli Pep Guardiola, stjóra Manchester City, þar sem spænski stjórinn skaut föstum skotum að þeim Carragher, Gary Neville og Micah Richards.
Þeir Carragher, Neville og Richards voru sérfræðingar hjá Sky Sports eftir leik City og Tottenham um helgina og þá töluðu þeir meðal annars um að það yrði erfitt fyrir City að vinna ensku úrvalsdeildina fjórða árið í röð.
„Hann veit hversu erfitt þetta er,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.
„Gary Neville hefði unnið þetta fjögur ár í röð ef það væri auðvelt. Jamie Carragher vann deildina aldrei og og Micah Richards vann ekki fjóra Englandsmeistaratitla í röð,“ sagði Guardiola.
„Ég hefði eflaust unnið einn titil ef Liverpool hefði verið í eigu ríkis og beygt reglurnar svo svakalega að félagið hefði verið kært fyrir 115 brot á fjármálareglum úrvalsdeildarinnar,“ sagði Carragher í svari sem hann birti á X.