Ekki viss um læknisþekkingu James

Ange Postecoglou. Vinstra megin glittir í James Maddison.
Ange Postecoglou. Vinstra megin glittir í James Maddison. AFP/Glyn Kirk

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, gefur lítið fyrir fullyrðingar James Maddison um að bataferli vegna meiðsla hans gangi hægt.

Maddison skaddaði liðband í ökkla í 4:1-tapi fyrir Chelsea fyrir mánuði síðan og verður frá fram á næsta ár.

„Þetta er að gróa vel, þetta gengur svolítið hægt sem er auðvitað pirrandi því ég byrjaði tímabilið svo vel. En þetta er að lagast, hægt en örugglega.

Þetta eru líklega mest langvarandi meiðsli sem ég hef þurft að glíma við ef þetta verða þrír mánuðir. Ég hef aldrei verið lengur frá en það. Það er pirrandi,“ sagði Maddison í samtali við Amazon Prime Sport í vikunni.

Postecoglou var á fréttamannafundi spurður út í þessi ummæli sóknartengiliðsins.

„Ég er ekki viss um læknisþekkingu James og hvort við ættum að treysta greiningu hans í þessu tilfelli.

Það er best að fylgja læknateyminu í þessum efnum. Eftir því sem ég kemst næst gengur bataferlið eins og vonir stóðu til,“ svaraði ástralski stjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert