Gagnrýnir goðsagnir Manchester United

Antony.
Antony. AFP/Oli Scarff

Antony, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er ósáttur með þá gagnrýni sem hann hefur fengið frá fyrrverandi leikmönnum félagsins.

Brasilíumaðurinn, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við United frá Ajax sumarið 2022 fyrir 82 milljónir punda en hann hefur heillað fáa með spilamennsku sinni hingað til.

Hann skoraði fjögur mörk og lagði upp tvö til viðbótar í ensku úrvalsdeildinni en hann á ennþá eftir að skora eða leggja upp í tíu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Hef aldrei séð uppbyggilega gagnrýni

„Fyrrverandi leikmenn félagsins sem starfa í sjónvarpi, sem og aðrir, hafa verið duglegir að gagnrýna mig frá því ég kom til félagsins,“ sagði Antony í samtali við United Stand.

„Gagnrýni þeirra hefur mikil áhrif á þúsundir stuðningsmanna og þeir gagnrýna mig meira að segja stundum þegar ég er ekki að spila. Ég hef aldrei séð uppbyggilega gagnrýni frá þeim heldur. 

Enginn þeirra hefur heldur sent mér skilaboð og spurt mig hvað ég sé að ganga í gegnum í persónulega lífinu. Samfélagsmiðlar eru að eyðileggja fótboltann og sannleikurinn skiptir engu máli lengur,“ bætti Antony pirraður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert