Knattspyrnumaðurinn Luca Koleosho, kantmaður Burnley, meiddist illa á hné í 1:0-tapi fyrir Wolves í ensku úrvalsdeildinni á þriðjudagskvöld.
Hinn 19 ára gamli Koleosho þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik og kom íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson inn á sem varamaður í hans stað í leiknum.
Koleosho hefur vakið athygli fyrir góða spretti í liði Burnley, sem hefur hins vegar tapað tólf af 15 leikjum sínum í úrvalsdeildinni á tímabilinu til þessa og er í 19. og næstneðsta sæti deildarinnar.
Á fréttamannafundi eftir leik sagði Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley, meiðsli Koleosho vera áfall fyrir liðið og að hann reikni með að táningurinn verði frá í marga mánuði, þó ekki sé útilokað að Koleosho snúi aftur áður en tímabilinu lýkur í vor.
Jóhann hefur verið inn og út úr liðinu hjá Burnley á yfirstandandi tímabili en meiðsli Koleosho þýða eflaust að mínútum hans muni fjölga á næstunni.
Það ætti að koma sér vel fyrir Burnley þar sem Jóhann er á meðal mest skapandi leikmanna úrvalsdeildarinnar á yfirstandandi tímabili, þegar litið er til hversu margar lykilsendingar sem enda með skoti hann á að meðaltali í leik.