Munurinn var Aron Pálmarsson

Sótt að Aroni Pálmarssyni í kvöld.
Sótt að Aroni Pálmarssyni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var ánægður með margt í leik sinna manna þrátt fyrir þriggja marka tap, 29:32, gegn FH í úrvalsdeild karla í handknattleik í Mosfellsbæ í kvöld.

„Munurinn á liðunum í kvöld var Aron Pálmarsson. Okku tókst bara ekki að stoppa hann. Við reyndum að setja 2-3 menn á hann í einu og það bara dugði ekki til.

Við ætluðum að reyna halda honum niðri en það einfaldlega tókst ekki. Ég er alls ekki óánægður með leik minna manna í kvöld í ljósi þess að hann er munurinn á liðunum,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

Hvað hefði mátt betur fara í ykkar leik í kvöld?

„Varnarleikurinn hefði mátt vera betri og markvarslan. Við fáum á okkur allt of mikið af mörkum og við ætluðum að gera ýmislegt allt öðruvísi í vörninni. Eitt af því var að stoppa Aron og vera í meiri kontakt.“

Þið eigið eftir að spila tvo leiki fyrir jólafrí gegn Selfoss og Val. Hvað þarf að gerast til að þið náið í fjögur stig úr þessum tveimur leikjum?

„Við þurfum fyrst og fremst að bæta vörn og markvörslu. Markaskorunin og árangurinn í heild sinni í kvöld hefði dugað til að vinna mjög mörg lið í þessari deild þannig að þetta var alls ekki slæm frammistaða þrátt fyrir tap.

Nú þurfum við bara að vera fljótir að jafna okkur og undirbúa okkur fyrir leik gegn Selfoss.“

Það hlýtur að vera krafa á sigur þar?

„Það er ekkert grín að fara á Selfoss. Þeir eru í blóðugri fallbaráttu og við í topp baráttu og við ætlum að fara í jólafríið í topp baráttu þannig að við ætlum okkur tvö stig í næsta leik.“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert