Kyle Walker, hægri bakvörður þrefaldra meistara Manchester City, segir í samtali við Tómas Þór Þórðarson á Símanum Sport að liðið hafi að undanförnu leikið jafn vel og það eigi að sér án þess að úrslitin hafi fylgt með.
Tómas Þór ræddi við Walker eftir 3:3 jafntefli við Tottenham Hotspur um síðustu helgi, sem var þriðja jafntefli Man. City í deildinni í röð.
„Maður vill spila spennandi leiki en aðaláherslan er á það að vinna leiki, sérstaklega með þessu liði. Við höfum gert það í svo mörg ár.
Við vitum að frammistaðan hefur verið svipuð á okkar mælikvarða en úrslitin hafa ekki verið í samræmi við það. Það gerist stundum í fótbolta, þannig virkar hann,“ sagði bakvörðurinn.
Eftir að viðtalið fór fram tapaði Man. City svo fyrir Aston Villa í gærkvöldi og er því án sigurs í fjórum deildarleikjum í röð.
Nánar er rætt við Walker í spilaranum hér að ofan.