Miðvörður United ekki með á morgun

Victor Lindelöf skallar boltann í leik með Manchester United í …
Victor Lindelöf skallar boltann í leik með Manchester United í síðasta mánuði. AFP/Paul Ellis

Sænski knattspyrnumaðurinn Victor Lindelöf, miðvörður Manchester United, er að glíma við meiðsli og getur því ekki tekið þátt í leik liðsins gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Lindelöf meiddist í 2:1-sigri Man. United á Chelsea á miðvikudagskvöld og fór af þeim sökum af velli í hálfleik.

Annar miðvörður liðsins, Raphael Varane, hefur hins vegar jafnað sig á bakmeiðslum sem urðu þess valdandi að hann gat ekki tekið þátt í leiknum gegn Chelsea og er klár í slaginn á morgun.

Christian Eriksen og Mason Mount nálgast endurkomu en ólíklegt er að Casemiro, Tyrell Malacia og Lisandro Martínez verði leikfærir að nýju fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert