Aston Villa hafði betur gegn Arsenal í toppslag helgarinnar í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag, 1:0.
Aston Villa er nú í þriðja sæti deildarinnar, einu stigi frá Arsenal sem situr í öðru sætinu og tveimur á eftir toppliði Liverpool. Sigurinn var fimmtándi heimasigur Aston Villa í röð.
Fyrsta og eina mark leiksins kom á sjöundu mínútu leiksins þegar fyrirliði Aston Villa, John McGinn, skoraði eftir glæsilega sókn Villa-manna.
Arsenal-menn gerðu allt hvað þeir gátu til þess að jafna metin en allt kom fyrir ekki og raunin því eins marks sigur Aston Villa. Aston Villa hefur verið á þvílíkri siglingu í ár og hafa komið mörgum á óvart með góðri frammistöðu og eru núna í toppbaráttu í deildinni.
Umdeilt atvik varð á lokamínútum leiksins þegar Havertz skoraði að sem virtist jöfnunarmark en dómarinn dæmdi hendi á Arsenal-manninn. Atvikið var skoðað í myndbandsdómgæslunni í langan tíma, heilar fjórar mínútur, þar til staðfestingin barst að Havertz hefði leikið boltann með hendinni og markið því dæmt af.
Aston Villa-menn héldu þetta að lokum út og voru fegnir er lokaflautið barst og sigurinn kominn í höfn. Aston Villa hefur því unnið Manchester City og Arsenal í sömu vikunni og frábær úrslit fyrir þá, en högg fyrir Arsenal sem missti toppsætið til Liverpool.