Manchester United laut í lægra haldi gegn Bournemouth á heimavelli í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag, 3:0. Er þetta fyrsti sigur Bournemouth á Manchester United á Old Trafford í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Manchester United tók á móti Bournemouth á heimavelli sínum, Old Trafford, en United gat með sigri í dag komist upp að hlið Manchester City í fjórða sæti deildarinnar.
Bournemouth-menn mættu með mikinn kraft í leikinn í dag og strax á fimmtu mínútu leiksins komust gestirnir yfir með marki frá Dominik Solanke, það var eina mark fyrri hálfleiksins.
Á 58. mínútu leiksins kom Philip Billing inn á sem varamaður en það tók hann einungis tíu mínútur að skora en á 68. mínútu leiksins tvöfaldaði hann forskot gestanna með glæsilegu skallamarki.
Fimm mínútum síðar skoraði svo Senesi með skallamarki úr hornspyrnu og kom gestunum í 3:0 þegar rúmar fimmtán mínútur voru til leiksloka.
Fleiri urðu mörkin ekki en Bruno Fernandes ákvað undir lok leiksins að næla sér í gult spjald fyrir mótmæli við dómarann og verður því í leikbanni gegn Liverpool í næstu umferð. Bournemouth lyftir sér upp í 13. sæti deildarinnar með sigrinum í dag, tíu stigum frá fallsæti.