Liverpool tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar með 2:1-seiglusigri á Crystal Place á Selhurt Park í Lundúnum í dag.
Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Liverpool hélt bolta vel innan liðsins en Crystal Palace fékk betri færi. Besta færi fyrri hálfleiks kom á 28. mínútu þegar heimamenn áttu vel útfærða skyndisókn sem endaði með því að Ayew kom föstum bolta fyrir á fjærstöng þar sem Jefferson Lerma kom aðvífandi og náði föstu skoti í hornið en Alisson í marki Liverpool sá við Kólumbíumanninum með stórkostlegri markvörslu.
Einni mínútu síðar fékk Crystal Palace dæmda vítaspyrnu. Wataru Endo missti boltann á hættulegum stað og Will Hughes kom boltanum á Edouard í teignum. Van Dijk tók Edouard niður og vítaspyrna dæmd. Með aðstoð myndbandstækninnar komst Andrew Madley, dómari leiksins að því að Hughes hafi brotið á Endo og sneri vítaspyrnudómnum við.
Liverpool var áfram mikið meira með boltann í seinni hálfleik en það fæst ekkert sjálfkrafa fyrir það. Lið Crystal Palace var klínískara og um margt hættulegra í sínum aðgerðum – beinskeyttara.
Á 56. mínútu dró til tíðinda þegar Madley var sendur í skjáinn til að skoða mögulegt brot inn í vítateig Liverpool nokkru áður. Madley sá Quansah brjóta af sér og dæmdi vítaspyrnu sem Jean-Philippe Mateta skoraði örugglega úr – sendi Alisson í annað hornið og setti boltann í netið.
Á 75. mínútu fékk Jordan Ayew sitt annað gula spjald fyrir klaufalegt brot á Harvey Elliott og þar með rautt. Í kjölfarið jafnaði Mohammed Salah metin fyrir gestina eftir klafs í teignum og við tóku æsilegar lokamínútur.
Það var svo þegar rétt 90 mínútur voru komnar á vallarklukkuna að varamaðurinn Harvey Elliott lét ríða af utan teigs og boltinn söng í netinu. Remi Matthews kom engum vörnum við í marki heimamanna og Liverpool hafði snúið stöðunni sér í vil.
Í kjölfarið sigldu gestirnir sigrinum þægilega í höfn þó Alisson hafi þurft að taka á honum stóra sínum undir lok leiks.
Mbl.is fylgdist vel með og færði ykkur það helsta í leiknum í beinni textalýsingu.