Einstefna í Lundúnum

Richarlison fagnar öðru marki sínu gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni …
Richarlison fagnar öðru marki sínu gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í dag. AFP

Tottenham bar sigur úr býtum gegn Newcastle í stórleik dagsins í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar 4:1. Það sá aldrei til sólar fyrir Newcastle sem voru bitlausir gegn Tottenham sem lék á als oddi á heimavelli sínum, fyrsti sigur Tottenham síðan í lok október.

Fyrsta mark leiksins skoraði Destiny Udogie á 26. mínútu leiksins, hans fyrsta mark fyrir Tottenham eftir góðan undirbúning frá Son Heung-min.

Son var frábær í leiknum og bjó seinna mark Tottenham til nánast upp á sitt einsdæmi þegar hann lék á Trippier og setti boltann fyrir markið þar sem Richarlison var vel staðsettur og skoraði sitt fyrsta mark í 19 byrjunarliðsleikjum fyrir Tottenham.

Richarlison var svo aftur á ferðinni á 60. mínútu leiksins þegar hann skoraði eftir laglega sendingu frá Pedro Porro.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Son fjórða mark Tottenham, Son lék á Dubravka í marki Newcastle sem braut af sér og Son fór á vítapunktinn. Hann skoraði af miklu öryggi framhjá Dubravka og sigurinn kominn í höfn.

Tottenham áfram í fimmta sæti deildarinnar með 30 stig en Newcastle í því sjöunda með 26 stig. Tottenham á leik gegn Nottingham Forest í næstu umferð en Newcastle mætir Fulham.

Á fyrstu mínútu uppbótartímans skoraði Joelinton þó og minnkaði muninn niður í 4:1 en það skipti litlu máli þar sem úrslitin voru nánast ráðin.

Tottenham 4:1 Newcastle opna loka
90. mín. Son Heung-min (Tottenham) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert