Franski knattspyrnumaðurinn Anthony Martial mun yfirgefa enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United þegar samningur hans rennur út næsta sumar.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Martial, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við United frá Monaco sumarið 2015.
Í frétt The Athletic kemur meðal annars fram að United hafi möguleika á því að framlengja samning hans um eitt ár til viðbótar en forráðamenn United hafa lítinn áhuga á því.
Félagið er tilbúið að selja hann þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í janúar en ef ekki berst ásættanlegt tilboð í leikmanninn þá yfirgefur hann félagið á frjálsri sölu næsta sumar.
Martial á að baki 317 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 90 mörk og lagt upp önnur 55 til viðbótar.